Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon munu stýra íslenska karlalandsliðinu í handknattleik í leikjum þess í undankeppni EM í handbolta í mars og apríl.
Þetta fékk mbl.is staðfest hjá Guðmundi B. Ólafssyni, formanni Handknattleikssambands Íslands, en Guðmundur Þ. Guðmundsson hætti í dag störfum sem þjálfari íslenska landsliðsins.
„Aðdragandinn að þessu samkomulagi var þannig séð ekkert lengri en eðlilegt er. Eftir að mótið kláraðist tókum við samtöl sem leiddu til þessarar niðurstöðu hjá okkur.
Það er alltaf þannig að eftir mót setjast menn niður og fara yfir hlutina. Síðan var þetta sameiginleg niðurstaða okkar í þessu.“
Er eitthvað ákveðið með næsta þjálfara?
„Nei, við höfum ekki tekið neina ákvörðun annað en það að við höfum óskað eftir því að Gunnar Magnússon og Ágúst Þór Jóhannsson, sem hafa verið aðstoðarþjálfarar, sinni þeim verkefnum sem fram undan eru.
Við eigum tvo leiki við Tékka í mars, mikilvæga leiki í undankeppni Evrópumótsins. Síðan eru einnig leikir við Ísrael og Eistland í apríl og við höfum óskað eftir því að þeir klári þau verkefni. Það hefur ekkert verið rætt um hver mun síðan taka við liðinu í framtíðinni, við ætlum að skoða það vel og gefa okkur góðan tíma.“
Þannig að þið setjið engin ákveðin tímamörk um ráðningu næsta þjálfara?
„Verkefnin okkar eru núna þannig að það eru þessir leikir í mars og svo í lok apríl en næstu verkefni eru síðan í haust. Þannig að við teljum okkur alveg hafa fram að haustinu til að finna nýjan mann,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson að lokum í samtali við mbl.is.