Valur tekur á móti franska liðinu Aix í næstsíðustu umferð B-riðils Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi leiksins þar sem sigur tryggir Val einfaldlega sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Jafntefli kemur liðinu einnig í góða stöðu þar sem Valur stendur betur að vígi í innbyrðis viðureignum gegn tveimur neðstu liðum riðilsins, Ferencváros og Benidorm. Þau mætast einmitt í kvöld á Spáni. Sigri Benidorm kæmi það sér vel fyrir Val en sigri Ferencváros færist aukin pressa á Íslandsmeistarana.
„Á pappírunum finnst mér þetta vera erfitt verkefni fyrir Valsmenn en miðað við hvernig þeir hafa spilað í þessari Evrópukeppni og Evrópukeppninni í fyrra, í leikjunum á móti Lemgo sérstaklega, þá er þetta alveg gerlegt.
Þeir þurfa að hitta á góðan leik og það er bara gaman að þetta sé fimmti heimaleikurinn og allt undir enn og aftur. Það er vonandi að fólk fjölmenni og verði með læti eins og Íslendingar kunna,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari japanska karlaliðsins í handknattleik og fyrrverandi landsliðsmaður, í samtali við Morgunblaðið í Origo-höllinni í gær.
Viðtalið við Dag má sjá í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.