Flensburg tryggði sér í kvöld sigur í B-riðli Evrópudeildar karla í handknattleik, riðli Valsmanna, með því að vinna heimasigur á sænska liðinu Ystad, 30:23.
Flensburg er með 16 stig af 18 mögulegum fyrir lokaumferðina sem fer fram næsta þriðjudag en Ystad er með 11 stig í öðru sætinu. Valsmenn gætu því enn náð öðru sæti með því að vinna bæði Aix í kvöld og Ystad á útivelli næsta þriðjudagskvöld. Valsmenn eru með sjö stig fyrir leikinn gegn franska liðinu sem hefst á Hlíðarenda klukkan 19.45.
Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark fyrir Flensburg í leiknum í kvöld en markahæstir hjá þýska liðinu voru dönsku heimsmeistararnir Mads Mensah með níu mörk og Emil Jakobsen með átta. Jonathan Svensson skoraði fimm mörk fyrir Ystad.