Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, verður með franska liðinu Aix er það mætir Val í B-riðli Evrópudeildarinnar í kvöld.
Fjölnismaðurinn uppaldi er staddur hér á landi ásamt liðsfélögum sínum og var með á æfingu liðsins í Origo-höllinni á Hlíðarenda í gær.
Félagið birti myndband af komu liðsins til landsins í gær og æfingunni í kjölfarið og sést Kristján á báðum myndböndum.
Hann gaf það út í síðustu viku að hann hefði tekið sér frí frá handbolta vegna kulnunar í starfi, en skyttan knáa virðist hafa jafnað sig fljótt og vel.