Magnaður viðsnúningur Eyjamanna

Dagur Arnarsson skýtur að marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld.
Dagur Arnarsson skýtur að marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyjamenn unnu frækinn sigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla, Olísdeildinni, í Garðabæ í kvöld, 26:23.

ÍBV flýgur þar með úr áttunda sætinu upp í það fjórða með 18 stig, einu stigi meira en Stjarnan sem sígur niður í það fimmta með 17 stig. Þar að auki eiga Eyjamenn enn tvo frestaða leiki inni og kæmust upp fyrir bæði FH og Aftureldingu í annað sætið með því að vinna þá báða.

Ekkert útlit var fyrir að leikurinn í Garðabæ yrði spennandi eftir þrettán mínútna leik en þá var staðan orðin 9:1, Stjörnumönnum í hag, en þeir fór á kostum á þessum kafla.

Eyjamenn hresstust hins vegar eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn, minnkuðu muninn smám saman og staðan í hálfleik var 13:11, Stjörnunni í hag.

Garðbæingar juku forskotið á ný og voru fjórum mörkum yfir, 16:12, eftir tíu mínútur í síðari hálfleik. En þá hófst síðari endurkoma Eyjamanna sem jöfnuðu metin í 17:17 á tólftu mínútu hálfleiksins.

Stjarnan komst í 20:18 og 21:19, en þá komu þrjú mörk ÍBV í röð og liðið var komið yfir í fyrsta sinn, 22:21. Þegar fimm mínútur voru eftir kom Elmar Erlingsson Eyjamönnum tveimur mörkum yfir, 24:22.

Elmar fór síðan á vítalínuna þegar þrjár mínútur voru eftir og kom ÍBV í 25:22. Þegar Gabríel Martínez bætti við marki, 26:22, var ljóst að sigur Eyjamanna væri í höfn.

Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 7, Tandri Már Konráðsson 6, Hergeir Grímsson 2, Hjálmtýr Alfreðsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 2, Pétur Árni Hauksson 1, Björgvin Þór Hólmgeirsson 1, Brynjar Hólm Grétarsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 14/1, Arnór Freyr Stefánsson 1/1.

Mörk ÍBV: Dagur Arnarsson 8, Elmar Erlingsson 6, Kári Kristján Kristjánsson 2, Theodór Sigurbjörnsson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2, Janus Dam Djurhuus 1, Arnór Viðarsson 1, Gabríel Martínez 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 5, Pavel Miskevich 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka