Óðinn Þór Ríkharðsson var enn og aftur í aðalhlutverki hjá svissneska liðinu Kadetten þegar það sótti Benfica heim til Portúgals í Evrópudeildinni í handknattleik í kvöld.
Óðinn skoraði átta mörk fyrir Kadetten og var langmarkahæstur en lið hans, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, vann leikinn 28:27. Óðinn skoraði sigurmarkið þegar enn voru þrjár mínútur etir af leiknum.
Kadetten var þegar búið að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum fyrir leikinn og er þegar öruggt með að minnsta kosti þriðja sæti A-riðilsins. Liðið er eitt þeirra sem Valsmenn gætu mögulega mætt í sextán liða úrslitunum.
Göppingen og Montpellier eru með 14 stig og Kadetten 12 í þremur efstu sætunum. Benfica er með 6 stig, Tatran Presov 4 og Veszprémi KKFT 2 stig.