Valur tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í handbolta með stórkostlegum 40:31-sigri á Aix frá Frakklandi í níundu og næstsíðustu umferð B-riðils. Valsmenn eru með níu stig eftir leikina níu og getur ekki endað neðar en í fjórða sæti.
Valsmenn léku fyrri hálfleikinn virkilega vel og voru skrefi á undan allan tímann. Mestur varð munurinn fimm mörk, 18:13. Aix var hins vegar sterkari aðilinn undir lok hálfleiksins og að lokum munaði þremur mörkum í hálfleik, 19:16.
Eins og hálfleikstölurnar gefa til kynna var sóknarleikur Vals afar vel heppnaður í fyrri hálfleik. Gestirnir réðu illa við mjög hraða Valsmenn og þá sérstaklega Stiven Tobar Valencia.
Hvað eftir annað varði Björgvin Páll Gústavsson vel og var snöggur að koma boltanum á Stiven sem nýtti færin afar vel.
Þess á milli skoruðu Valsmenn eftir vel heppnuð kerfi og góðar línusendingar frá Aroni Degi Pálssyni.
Helsti hausverkur Vals í fyrri hálfleik var að stöðva línuspil Aix, en Tomas Rodríguez var Valsmönnum erfiður á línunni.
Valsmenn náðu aftur fimm marka forskoti þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður, 26:21. Munurinn varð síðan sex mörk í fyrsta skipti þegar rúmar tíu mínútur voru eftir, 29:23.
Í kjölfarið gengu Valsmenn á lagið, völtuðu yfir gestina á lokakaflanum og unnu eftirminnilegan níu marka sigur. Björgvin Páll Gústavsson var maður leiksins með 27 varin skot. Stiven Tobar Valencia skoraði átta mörk.
Lokaleikur Vals í riðlinum er gegn sænska liðinu Ystad á útivelli á þriðjudag eftir viku.