Matthieu Ong, fyrirliði franska handknattleiksliðsins Aix, er í leikmannahópi liðsins sem mætir Val í Evrópudeildinni í kvöld.
Hann hefur áður mætt íslensku liði í Evrópukeppni, því hann var í liði Aix sem mætti ÍBV í sömu keppni árið 2018.
Fyrsti Evrópuleikur leikmannsins var á útivelli gegn Eyjamönnum og voru liðsfélagar hans síður en svo hrifnir af því að sigla með Herjólfi í október á Íslandi.
„Þetta var fyrsti Evrópuleikurinn minn og hann er enn þá sá klikkaðasti. Ég man enn þá að það var vont í sjóinn og öldurnar mjög háar.
Flestir í liðinu urðu sjóveikir og ég á enn myndir af liðsfélögum mínum í símanum þar sem þeir liggja á dekkinu, við það að kasta upp,“ rifjar Ong upp í viðtali sem birtist á heimasíðu evrópska handknattleikssambandsins.
„Ég er heppinn, því ég verð ekki sjóveikur. Ég man við töpuðum fyrri leiknum á útivelli en unnum seinni leikinn sannfærandi,“ bætti hann við.
Leikurinn við Val í kvöld er afar mikilvægur fyrir bæði lið. Valur tryggir sér sæti í 16-liða úrslitum með sigri, á meðan Aix þarf á sigri að halda í baráttunni um að fara áfram.
„Þetta er úrslitaleikur. Við getum samt ekki sagt að við séum með mikið sjálfstraust, bara því við unnum Val í fyrri leiknum. Þeir eru með góða leikmenn á meðan við erum í erfiðri stöðu,“ sagði Ong.