Þorgeir Haraldsson hefur látið af störfum sem formaður handknattleiksdeildar Hauka, eftir að hafa verið viðloðandi félagið í meira en hálfa öld.
Þorgeir lék með Haukum, þjálfaði karla- og kvennaliðs félagsins, var í stjórn, nefndum og loks formaður bæði handknattleiksdeildarinnar og knattspyrnufélagsins Hauka.
Eftirmaður Þorgeirs er Þorkell Magnússon, en hann lék einnig með Haukum, ásamt því að hafa verið í stjórn handknattleiksdeildarinnar á undanförnum árum.
„Þorgeiri var á aðalfundinum þökkuð sérlega gifturík störf á vettvangi Handknattleiksdeildar Hauka. Þótt víða væri leitað, má fullyrða að enginn annar formaður handknattleiksdeildar hafi á þessari öld átt þátt í öðrum eins fjölda meistaratitla líkt og meistaraflokkar Hauka unnu til, svo og fjöldi meistaratitla í yngri flokkum,“ segir m.a. í yfirlýsingu Hauka.