Ráðast úrslitin í 1. deild í kvöld?

Hjörtur Ingi Halldórsson hefur verið atkvæðamikill fyrir HK í vetur.
Hjörtur Ingi Halldórsson hefur verið atkvæðamikill fyrir HK í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Úrslit geta ráðist í 1. deild karla í handbolta í kvöld.

HK getur tryggt sæti sitt í úrvalsdeildinni en liðið er með sex stiga forskot á Víking á toppi deildarinnar þegar fjórum umferðum er ólokið. Eitt stig dugar HK til viðbótar til að tryggja sæti sitt meðal þeirra bestu á ný en liðið heimsækir einmitt Víking í Safamýri í kvöld.

Leikur Víkings og HK hefst klukkan 20.

Aðeins efsta liðið fær sjálfkrafa þátttökurétt í úrvalsdeildinni að ári en fjögur næstu lið fara í umspil um sæti meðal þeirra bestu.

Tíu lið eru í fyrstu deild karla og þar af fimm ungmennalið frá Val, Haukum, Fram, KA og Selfossi.

Ungmennalið geta ekki unnið sér inn þátttökurétt í úrvalsdeild svo það er ljóst að þau lið sem fara ekki beint upp fara öll í umspilið. Þau eru auk HK og Víkings; Fjölnir í 4. sæti með 14 stig, Þór í 9. sæti með tíu stig og Kórdrengir sem eru í 10. og síðasta sæti deildarinnar án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert