Ágúst Jóhannsson, þjálfari Valskvenna, var augljóslega ekki í sjöunda himni eftir leik ÍBV og Vals í Vestmannaeyjum í dag í Olísdeild kvenna. Með sigri hefðu Valskonur allt að því tryggt sér deildarmeistaratitilinn en nú verður að teljast líklegt að ÍBV vinni titilinn í staðinn.
Eyjakonur unnu leikinn nefnilega með eins marks mun en lokamarkið kom þegar 59 mínútur og 59 sekúndur voru liðnar af leiknum. Lokatölur 29:28 í leik sem var mikil skemmtun fyrir þá fjölmörgu áhorfendur sem mættu.
„Þetta var frábær handboltaleikur og ég óska ÍBV til hamingju, þær spiluðu ótrúlega vel og voru góðar hér undir pressu í lokin. Síðasta sóknin var vel útfærð hjá þeim. Mér fannst við vera klaufar, þetta var auðvitað jafn leikur en við erum yfir þegar það voru 10-12 mínútur eftir og þar erum við klaufar að koma okkur ekki í 3-4 mörk. Ódýrir tæknifeilar og ruðningar sem við erum að fá á okkur sem var dýrt í lokin,“ sagði Ágúst en hans stelpur tóku frumkvæðið í upphafi síðari hálfleiks og virtust ætla að halda þetta út.
„Við fórum illa af ráði okkar, mér fannst við vera að slútta ágætlega á markið og í fyrri hálfleik erum við ekki með nema þrjá tapaða bolta, það eru þessir klaufalegu tæknifeilar í lokin sem eru dýrir.“
Settu Valskonur þetta upp sem úrslitaleik?
„Auðvitað var þetta pínu þannig, við vissum það sérstaklega að ef við myndum tapa þessum leik ættu ÍBV þægilegt prógramm eftir og myndi ég halda að þær klári sitt. Við vissum að sigur hjá þeim þýðir að þær eru komnar langt með deildarmeistaratitilinn.“
ÍBV hefur nú unnið 15 leiki í röð í deild og bikar sem er frábært afrek og alvöru sigurganga hjá liðinu, allt frá því að Valskonur lögðu þær að velli í Vestmannaeyjum 26:31.
„ÍBV er búið að spila mjög vel í vetur og verið jafnt og þétt að bæta sína spilamennsku, takturinn á þeim hefur verið góður og þær eru heitasta liðið eins og staðan er í dag. Við erum með vel mannað lið og hefðum alveg getað unnið þetta, þetta var 50/50, stöngin inn stöngin út, ég ætla að ítreka hamingjuóskir til ÍBV.“
Hvað fór úrskeiðis í lokasókn gestanna?
„Við ætluðum að fara maður og mann og búa til einhverja stöðu, síðan var höndin allt í einu komin upp og við endum í einhverju panik skoti. Ég vil samt taka það fram að mér fannst dómararnir góðir, þeir dæmdu leikinn mjög vel.“