Vá hvað þetta var gaman

Hrafngildur Hanna í baráttunni í dag.
Hrafngildur Hanna í baráttunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjakonur komu sér í frábæra stöðu í Olísdeild kvenna í dag þegar þær lögðu Valskonur að velli með eins marks mun 29:28 í Vestmannaeyjum í dag. Sigurmarkið gerði Harpa Valey Gylfadóttir á síðustu sekúndu leiksins. Það var þó Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sem var markahæst í leiknum en hún skoraði 13 mörk og þar af aðeins eitt af vítalínunni.

„Tilfinningin er geggjuð, vá hvað þetta var gaman. Ég held að stemningin í stúkunni hafi hjálpað okkur að klára þetta, við mættum í þennan leik og gáfum gjörsamlega allt. Við vorum undir næstum því allan leikinn en gáfumst svo sannarlega ekki upp og það var gaman að klára þetta á síðustu sekúndunni,“ sagði Hrafnhildur Hanna, sigurganga ÍBV telur nú 15 leiki í deild og bikar en það er ótrúlegt afrek.

ÍBV setti leikinn upp eins og úrslitaleik.

„Já, klárlega. Enda eru þær efstar í deildinni og við númer tvö, þetta var því klárlega eins og úrslitaleikur. Það er þó nóg eftir af mótinu og við vitum að það er ekkert í hendi ennþá. Við gleðjumst í dag og náum okkur svo niður á jörðina og höldum áfram.“

Ef ÍBV nær að framlengja sigurgönguna um þrjá deildarleiki í viðbót þá verður liðið deildarmeistari.

„Það væri bara geggjað, við mætum í hvern einasta leik og verkefni með fullri einbeitingu. Við höfum mjög gaman að þessu og fögnum þegar vel gengur, við náum okkur alltaf niður á jörðina og setjum fókusinn á næsta verkefni. Það hefur gengið vel og við höldum áfram.“

Það eru 17 ár síðan ÍBV vann titil í meistaraflokki kvenna í handknattleik, er allur fókusinn á því að enda þá eyðimerkurgöngu?

„Það var frábært lið hérna fyrir 17 árum og það er kominn tími til að ná í titil til Eyja. Við þurfum að halda áfram að vinna og það er ekkert í hendi ennþá.“

Hrafnhildur Hanna hefur átt marga góða leiki upp á síðkastið og var mögnuð í dag með sín 13 mörk, hver er lykillinn að góðri spilamennsku hennar?

„Þetta er auðvitað frábært lið sem ég er í, þegar það lokast á eina þá opnast fyrir aðra. Mér finnst við spila virkilega vel saman og þetta hefur virkað þannig að opnanirnar hafa komið ágætlega fyrir mig. Ég hef sjálf haldið vel á spöðunum og unnið vel eftir mjög erfið meiðsli sem ég hef verið í auk þess að æfa vel og hugsa vel um mig, það er að skila sér. Liðsheildin er að skila þessu.“

Hvernig var tilfinningin þegar Harpa skoraði og svo inni í klefa eftir leik? „Ég er virkilega glöð, búin á því orkulega og röddin farin, vá hvað þetta var gaman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert