Selfoss vann sterkan sex marka útisigur á KA, 35:29, í Olísdeild karla í handknattleik í KA heimilinu á Akureyri í dag.
Jafnræði var á milli liðanna allan fyrri hálfleikinn en Selfoss leiddi yfirleitt. Mest komust Selfyssingar þremur mörkum yfir og leiddu í hálfleik með tveimur, 18:16.
Selfoss skoraði svo fyrstu þrjú mörk síðari hálfleiksins og komst fimm mörkum yfir, 21:16. KA-menn minnkuðu muninn en komust aldrei nær en þremur mörkum undir.
Undir lok leiksins jók Selfoss aðeins forskot sitt og komst mest níu mörkum yfir, 34:25. KA minnkaði muninn aðeins en Selfoss vann að lokum sex marka sigur, 35:29.
Selfyssingarnir Ísak Gústafsson og Atli Ævar Ingólfsson voru markahæstu menn leiksins með sjö hvor. Gauti Gunnarsson og Jens Bragi Bergþórsson settu sex mörk hvor fyrir KA.
Þetta er afar slæmt tap fyrir KA-menn en þeir eru í tíunda sæti með 11 stig, þremur frá fallsæti þar sem ÍR er en ÍR-ingar eiga einnig leik til góða. Það stefnir því allt í æsispennandi fallbaráttu milli liðanna tveggja undir lok mótsins.
Mörk KA: Gauti Gunnarsson 6, Jens Bragi Bergþórsson 6, Dagur Gautason 5, Einar Rafn Eiðsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Ólafur Gústafsson 2, Allan Nordberg 2, Ragnar Snær Njálsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Dagur Árni Heimisson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 8, Nicholas Adam Satchwell 4.
Mörk Selfoss: Ísak Gústafsson 7, Atli Ævar Ingólfsson 7, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Einar Sverrisson 3, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Hannes Höskuldsson 3, Sölvi Svavarsson 2, Ragnar Jóhannsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 1, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Sverrir Pálsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 10, Vilius Rasmias 5.