Handknattleiksdeild ÍBV gerði í kvöld samkomulag við Magnús Stefánsson og verður hann þjálfari karlaliðs félagsins frá og með næsta tímabili. Gerði Magnús tveggja ára samning við félagið.
Magnús er sem stendur aðstoðarþjálfari Erlings Richardssonar hjá ÍBV og leituðu forráðamenn félagsins því ekki langt að eftirmanni Erlings. Erlingur gaf það út á dögunum að hann myndi hætta með liðið eftir tímabilið.
Magnús hefur verið hjá ÍBV frá árinu 2011 sem leikmaður, þjálfari yngri flokka og nú loks þjálfari meistaraflokks. Varð hann m.a. Íslandsmeistari með ÍBV árin 2014 og 2018.