Valsmenn fara til Þýskalands  

Arnór Snær Óskarsson og félagar mæta Göppingen frá Þýskalandi í …
Arnór Snær Óskarsson og félagar mæta Göppingen frá Þýskalandi í 16-liða úrslitum. mbl.is/Árni Sæberg

Þar sem Valur vann 35:33-útisigur á Ystad í B-riðli Evrópudeildar karla í handbolta í kvöld er ljóst að liðið mætir þýska liðinu Göppingen í 16-liða úrslitum keppninnar.

Göppingen vann 27:25-sigur á Montpellier frá Frakklandi í A-riðliðinum og tryggði sér í leiðinni annað sæti riðilsins. Valsmenn enda í þriðja sæti í B-riðils, eftir að hafa verið einu marki frá því að tryggja sér annað sætið í kvöld.

Þýska liðið endaði með 16 stig í A-riðli, eins og Montpellier, en Montpellier var með betri árangur innbyrðis, þrátt fyrir úrslit kvöldsins.

Göppingen hefur ekki átt gott tímabil í þýsku deildinni, því liðið er í 14. sæti af 18 liðum, með 12 stig eftir 21 leik.

Fyrri leikur Vals og Göppingen fer fram í Origo-höllinni 21. mars og sá seinni í Göppingen 28. mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert