Valsmenn hársbreidd frá öðru sæti

Aron Dagur Pálsson sækir að marki Ystad í fyrri leik …
Aron Dagur Pálsson sækir að marki Ystad í fyrri leik liðanna. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann tveggja marka sigur á Svíþjóðarmeisturum Ystad, 35:33, í lokaum­ferð B-riðils Evr­ópu­deild­ar karla í hand­bolta í Ystad á Skáni í kvöld. 

Fyrir leik voru bæði lið kom­in áfram í 16-liða úr­slit keppn­inn­ar, en voru í bar­áttu um annað sæti riðils­ins. Val­ur varð að vinna með minnst þrem­ur mörk­um til að fara upp fyr­ir Ystad og í annað sæti riðilsins.

Valsliðið átti rafmagnaðan fyrri hálfleik frá A-Ö. Valsmenn vörðust sóknaraðgerðum Ystad vel og sóttu af miklum krafti og bókstaflega keyrðu yfir heimamenn oft á tíðum. Á sama tíma sem sóknin og vörnin stóð sig vel þá var einnig Björgvin Páll Gústafsson, markvörður, í fantaformi og tók níu bolta, oft á tíðum einn á móti einum. 

Stiven Tobar Valencia, Arnór Snær Óskarsson og Magnús Óli Magnússon voru lykilmenn í velgengi Vals í fyrri hálfleik og Svíarnir höfðu engin svör. Að lokum leiddi Valsliðið með átta mörkum, 21:13, í lok fyrri hálfleiksins. 

Valsmenn byrjuðu af svipuðum krafti í seinni hálfleik og héldu muninum í sjö til níu mörkum fyrstu tíu mínúturnar. Eftir það hrökk reynsluboltinn Kim Andersen í gang fyrir Ystad og leiddi endurkomu sinna manna. 

Valsliðið fór að tapa boltanum klaufalega og fá dæmt á sig óþarfa tveggja mínútna brottvísanir og Ystad jafnaði metin er sex mínútur voru eftir, 31:31. 

Eftir það komu Valsmenn sér aftur í gang og fengu tvisvar tækifæri til að koma sér í þriggja marka forystu á nýjan leik. Fyrst þegar ein og hálf mínúta var eftir og svo í lokasókninni. Í bæði skiptin vantaði upp á gæði sendinga en í lokasókninni reyndi Benedikt Gunnar Óskarsson að þræða Finn Inga Stefánsson í gegn en Svíarnir komust fyrir boltann.

Leiknum lauk 35:33 Val í vil sem endar þá endanlega í þriðja sæti riðilsins. Mótherji Valsmanna í 16-liða úrslitunum er þýska liðið Göppingen. 

Stiven Tobar Valencia var markahæstur í liði Valsmanna í dag með sjö stykki en þrír leikmenn Ystad settu einnig sjö mörk, þeir Kim Andersen, Anton Mansson og Jonathan Svensson. 

Allt í allt eru þetta svekkjandi en góð úrslit fyrir Valsliðið sem heldur áfram að koma á óvart og standa í bestu liðum Evrópu.

Ystad 32:35 Valur opna loka
60. mín. Stiven Tobar Valencia (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert