Halldór Jóhann Sigfússon var á mánudag ráðinn aðalþjálfari karlaliðs Tvis Holstebro, sem leikur í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari liðsins frá síðasta sumri. Mun hann stýra liðinu út tímabilið áður en hann tekur við starfi aðalþjálfara hjá Nordsjælland, sem einnig leikur í úrvalsdeildinni.
„Það bar svolítið snögglega að þegar ég var ráðinn til Holstebro síðasta sumar. Þá var félagið auðvitað að leita að þjálfara sem gæti og þyrfti hugsanlega að stíga inn í starf aðalþjálfara. Það var út af því að aðalþjálfarinn hafði verið í veikindaleyfi og félagið vissi auðvitað ekki hvernig það yrði í framhaldinu.
Síðan hefur þetta auðvitað gengið mjög fínt í vetur og okkar samstarf verið mjög gott, það hefur alls ekki verið vandamálið. Svo hefur verið tímabil núna þar sem við höfum ekki unnið í sex leikjum í röð, tapað fimm og gert eitt jafntefli, þannig að við höfum ekki unnið leik í þrjá mánuði.
Eftir erfiða byrjun á tímabilinu í september áttum við fínan kafla í október og nóvember. Í kjölfarið kom niðursveifla þannig að stjórnin vildi breyta til eftir að við gerðum jafntefli í síðasta leik gegn neðsta liðinu á heimavelli, til þess að breyta einhverjum takti,“ sagði Halldór í samtali við Morgunblaðið, spurður út í aðdraganda ráðningarinnar.
Viðtalið við Halldór má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.