„Þetta er skrítið og tómlegt, það vantar allt Framtengt hérna,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir, landsliðskona í handbolta og leikmaður Fram. Perla ræddi við mbl.is fyrir landsliðsæfingu í Safamýri, sem nú er heimavöllur Víkings úr Reykjavík, en var áður heimavöllur Fram.
Íslenska landsliðið er í óðaönn að gera sig klárt fyrir tvo vináttuleiki við sterkt B-landslið Noregs, en A-landslið þjóðarinnar er besta lið heims og hefur verið í fremstu röð í áraraðir. Fyrri leikurinn fer fram annað kvöld og sá seinni á laugardag. Báðir leikir fara fram á Ásvöllum.
„Þetta er mjög spennandi og verður gott fyrir okkur að mæta svona sterku liði. Það eru alltaf heimsklassa leikmenn hjá Noregi og nokkrir mjög sterkir leikmenn í Vipers og öðrum stórum klúbbum. Þetta verður mjög verðugt verkefni hjá okkur,“ sagði Perla.
Nýverið var tilkynnt að hún myndi ganga aftur í raðir uppeldisfélagsins Selfoss eftir leiktíðina, en hún er á sínu fjórða tímabili með Fram, þar sem hún hefur verið sigursæl. Selfoss er nýliði í efstu deild í vetur og í neðri hluta deildarinnar.
„Ég bý á Selfossi, á eins árs barn og ég er búin að vera að keyra á milli í fjögur ár. Það er erfitt fyrir fjölskylduna. Nú er spennandi að fara að búa til eitthvað alvöru á Selfossi, með uppeldisklúbbnum,“ útskýrði Perla.
Hún sér möguleika til staðar í heimabænum, en Selfoss er í sjöunda og næstneðsta sæti Olísdeildarinnar, með átta stig eftir átján leiki.
„Þær hafa verið óheppnar núna vegna meiðsla og spilað án lykilmanna, en samt staðið sig vel. Þær unnu KA/Þór í síðasta leik og hafa verið að standa í góðum liðum. Þær eru hins vegar þunnskipaðar og það voru bara ellefu á skýrslu í síðasta leik. Þær hafa staðið sig mjög vel og það eru margir efnilegir og flottir leikmenn. Ég er mjög spennt fyrir framhaldinu.“
Framliðið er sem stendur í fjórða sæti með 21 stig, en liðið hefur verið í fremstu röð hér á landi síðustu ár og ávallt verið í baráttu um efstu sætin eftir að Perla gekk í raðir félagsins.
„Við erum búnar að ganga í gegnum mjög mikið af breytingum. Það eru margir leikmenn farnir og margt breyst á meðan á tímabilinu stendur. Þetta er búið að vera erfitt og lið eins og Valur, Stjarnan og ÍBV hafa verið með sama hóp í 2-3 ár. Þær eru búnar að byggja saman hópa á meðan við erum með glænýtt lið. Það er svolítið munurinn.
Mér finnst við samt vera á uppleið. Við erum búnar að bæta ýmislegt í okkar leik, sóknarleikurinn okkar er orðinn betri og svo erum við alltaf góðar í vörn og með flotta markvörslu. Við erum á góðri leið og við ætlum að halda áfram að bæta okkur og toppa í úrslitakeppninni,“ sagði Perla.