Þjálfari Kristjáns látinn taka pokann sinn

Kristján Örn Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu.
Kristján Örn Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn franska handknattleiksfélagsins Aix hefur ákveðið að vísa þjálfara karlaliðsins, Thierry Anti, frá störfum eftir dapran árangur að undanförnu.

Landsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson leikur með Aix og hefur gert frá árinu 2020.

Franski miðillinn La Provence greinir frá því að Anti muni stýra liðinu í hinsta sinn á laugardaginn kemur þegar Aix heimsækir landsliðsmarkvörðinn Viktor Gísla Hallgrímsson og félaga í Nantes í frönsku 1. deildinni.

Aix hefur átt erfitt uppdráttar undanfarnar vikur og steinlá til að mynda fyrir Val í B-riðli Evrópudeildarinnar í síðustu viku, sem sá til þess að franska liðið átti ekki lengur möguleika á sæti í 16-liða úrslitum keppninnar, sem Valur náði að tryggja sér með sigrinum.

Steininn tók svo úr þegar Aix tapaði fyrir botnliði Séléstat, sem markvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson leikur með, í deildinni síðastliðinn föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert