FH vann uppgjörið við Eyjamenn

Phil Döhler varði vel í marki FH í kvöld.
Phil Döhler varði vel í marki FH í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FH-ingar styrktu stöðu sína í öðru sæti úrvalsdeildar karla í handknattleik með því að sigra Eyjamenn í uppgjöri liðanna í öðru og þriðja sæti í Kaplakrika í kvöld, 27:24.

FH er þá komið með 24 stig í öðru sætinu, sjö stigum á eftir toppliði Vals, en er nú fjórum stigum á undan ÍBV sem er með 20 stig og á tvo leiki til góða.

Eftir jafnar upphafsmínútur komust Eyjamenn þremur mörkum yfir, í 7:4, og síðan í 9:6 en FH náði að jafna metin í 10:10 þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. FH-ingar náðu síðan forystunni, 12:11, og komust tveimur mörkum yfir, 14:12, undir lokin. Staðan í hálfleik var 15:13, Hafnfirðingunum í hag.

FH-ingar voru tveimur til þremur mörkum yfir framan af síðari hálfleiknum og voru yfir, 20:18, um hann miðjan. ÍBV jafnaði í 21:21 þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. FH sigldi fram úr á ný og komst í 26:23 þegar hálf þriðja mínúta var eftir af leiknum.

Eyjamenn réðu ekki við það og FH-ingar fögnuðu mikilvægum sigri í leikslok.

Mörk FH: Jóhann Birgir Ingvarsson 5, Egill Magnússon 4, Jón Bjarni Ólafsson 4, Ásbjörn Friðriksson 3, Birgir Már Birgisson 3,  Jakob Martin Ásgeirsson 2, Ágúst Birgisson 2, Einar Bragi Aðalsteinsson 2, Einar Örn Sindrason 1.
Phil Döhler varði 16 skot.

Mörk ÍBV: Arnór Viðarsson 9, Kári Kristján Kristjánsson 5, Janus Dam Djurhuus 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2, Dagur Arnarsson 1, Elmar Erlingsson 1, Róbert Sigurðarson 1, Theodór Sigurbjörnsson 1.
Petar Jokanovic varði 2/1 skot og Pavel Miskevich 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert