„Þetta er rosalega spennandi verkefni,“ sagði Andrea Jacobsen, landsliðskona í handbolta og leikmaður EH Aalborg í Danmörku, í samtali við Morgunblaðið. Íslenska liðið leikur tvo vináttuleiki við B-lið Noregs á Ásvöllum. Sá fyrri er í kvöld klukkan 19:30 og sá seinni á laugardaginn klukkan 16.
Norska A-landsliðið hefur lengi verið í allra fremstu röð og hefur Þórir Hergeirsson náð mögnuðum árangri sem þjálfari liðsins og unnið hvert stórmótið á fætur öðru. Andrea sagði norska B-liðið verðugan andstæðing og góða upphitun fyrir leiki gegn Ungverjalandi í umspili um sæti á HM, en þeir leikir fara fram í apríl.
„Þetta er kannski ekki topplið en þetta er lið sem er svipað sterkt og við og klárlega verðugur andstæðingur fyrir næsta verkefni á móti Ungverjalandi. Ef maður horfir á norskan handbolta sér maður að það er fullt af góðum leikmönnum. Þetta verður eflaust virkilega gott lið,“ sagði Andrea, sem er uppalin hjá Fjölni.
Andrea lék í fjögur ár með Kristianstad í Svíþjóð, áður en hún skipti yfir til Álaborgarfélagsins fyrir yfirstandandi leiktíð. Henni hefur gengið afar vel í dönsku B-deildinni og er ánægð hjá félaginu.
„Ég er ótrúlega sátt og ég get verið sátt við mína eigin frammistöðu. Mér finnst ég vera að bæta mig í hverjum leik. Mér líður rosalega vel í umhverfinu líka og með þennan þjálfara. Þetta var frábært skref fyrir mig og vonandi held ég áfram að bæta mig,“ sagði hún.
Viðtalið við Andreu má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.