Framarar eru í fjórða sæti úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildarinnar, eftir sigur á Haukum í Úlfarsárdal í kvöld, 35:30.
Þeir fóru með sigrinum upp fyrir Eyjamenn og eru jafnir Stjörnunni með 21 stig en eru fyrir neðan Garðbæingana vegna innbyrðis úrslita. Haukar eru áfram í áttunda sætinu með 17 stig og þurfa áfram að berjast fyrir því að komast í úrslitakeppnina.
Eftir jafnar upphafsmínútur og mikið af mörkum komust Framarar í 8:5 eftir tíu mínútna leik. Það tók Hauka hins vegar aðeins þrjár mínútur að jafna í 9:9. Aftur sigu Framarar fram úr og voru yfir, 13:10, eftir 20 mínútur en Haukar jöfnuðu á ný í 13:13 og staðan var 15:15 í hálfleik.
Í seinni hálfleik var jafnt á öllum tölum og liðin yfir til skiptis þar til Framarar komust í 24:22. Haukar jöfnuðu, 25:25. En þá tók Fram leikinn í sínar hendur með fimm mörkum í röð þar sem staðan var orðin 30:25 þegar átta mínútur voru eftir af leiknum.
Mörk Fram: Stefán Orri Arnalds 5, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 5, Luka Vukicevic 5, Stefán Darri Þórsson 4, Breki Dagsson 3, Ívar Logi Styrmisson 3, Þorvaldur Tryggvason 3, Reynir Þór Stefánsson 2, Kristófer Dagur Sigurðsson 2, Marko Coric 1, Kjartan Þór Júlíusson 1, Arnar Snær Magnússon 1.
Breki Hrafn Árnason varði 16 skot.
Mörk Hauka: Andri Már Rúnarsson 9, Ólafur Ægir Ólafsson 6, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Þráinn Orri Jónsson 3, Geir Guðmundsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1, Össur Haraldsson 1.
Aron Rafn Eðvarðsson varði 10/1 skot.