Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen náðu Füchse Berlín að stigum á toppi þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld með því að vinna mjög öruggan heimasigur á Wetzlar, 34:24.
Löwen og Füchse eru þar með bæði með 37 stig en Füchse hefur leikið 21 leik og Löwen 22 af 34 á tímabilinu. Kiel er með 34 stig eftir 20 leiki og Magdeburg er með 31 stig en hefur aðeins leikið 19 leiki.
Ýmir skoraði tvö mörk fyrir Löwen í leiknum í kvöld.
Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, fór upp í níunda sætið í kvöld með sannfærandi sigri á Melsungen, 31:23. Liðin eru nú jöfn að stigum, með 20 stig, en Melsungen datt niður í ellefta sætið.
Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach en Hákon Daði Styrmisson ekkert. Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú stig fyrir Melsungen og Arnar Freyr Arnarsson tvö.
Þá vann Bergischer sigur á Minden, 34:32, þar sem Arnór Gunnarsson skoraði eitt mark fyrir Bergischer en Sveinn Jóhannsson ekkert fyrir Minden. Bergischer er með 20 stig í tíunda sætinu en Minden er í sautjánda og næstneðsta sætinu með aðeins 6 stig.