Mér líður aldrei alveg vel

Arnar Pétursson kemur skilaboðum áleiðis í kvöld.
Arnar Pétursson kemur skilaboðum áleiðis í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er ánægður með margt,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvennaliðs Íslands í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 31:26-sigur á B-liði Noregs á Ásvöllum í kvöld.

„Ég er ánægður með hvernig við mætum inn í þennan leik. Við kláruðum varnarvinnuna og 6-0 vörnin var að virka mjög vel. Við keyrðum ágætlega upp völlinn, vorum skipulögð og öguð í sókninni,“ bætti hann við.

Íslenska liðið var yfir allan leikinn, en norska liðið sjaldnast langt undan. Ísland var svo betra á lokakaflanum.

„Mér leið ágætlega. Mér líður aldrei alveg vel. Ég var feikiánægður með framlagið hjá stelpunum. Við erum að koma framar á völlinn en við höfum verið að gera, það gekk vel.“

Rut Jónsdóttir í baráttunni í kvöld.
Rut Jónsdóttir í baráttunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

B-lið Noregs samanstendur af ungum og efnilegum leikmönnum, sem ætla sér að komast í hið geysisterka A-landslið Noregs.

„Það þarf að standa vörnina og hjálpa markvörðunum eins og við getum til að stoppa þetta lið. Við gerðum það vel í kvöld. Elín byrjaði vel í markinu en svo opnaðist þetta full mikið á köflum og þá varð þetta erfitt fyrir hana. Við stóðum vörnina betur í seinni,“ sagði hann.

Andrea Jacobsen var markahæst hjá Íslandi í leiknum með sex mörk. „Andrea er alltaf að vaxa. Hún er gríðarlega flottur leikmaður, sem ég mikla trú á,“ sagði Arnar, áður en hann staðfesti að Margrét Einarsdóttir og Katla María Magnúsdóttir myndu leika sinn fyrsta landsleik í seinni leik liðanna á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert