„Ég var ánægð með nokkuð margt,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, hægri hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 31:26-sigur á norska B-landsliðinu á Ásvöllum í kvöld.
„Ég var ánægð með vörnina að mörgu leyti, þótt við duttum aðeins niður í lok fyrri hálfleiks. Markvarslan var flott og við spiluðum fantagóðan sóknarleik. Ég er nokkuð ánægð með bróðurpart leiksins. Ég er líka rosalega ánægð með að vinna leikinn. Það var markmiðið mitt í dag,“ sagði Þórey.
Þrátt fyrir að um varalið Noregs hafi verið að ræða, var liðið sem Ísland spilaði við í dag býsna gott.
„Þetta eru ungar og sprækar stelpur, sem eru samt í liðum í Meistaradeildinni og að vinna þá keppni. Þetta eru frábærar handboltastelpur að spila í bestu liðum í heimi og í æfingaumgjörð sem fer eftir því. Það var gaman að spila við þær og ég hlakka til á laugardaginn,“ sagði Þórey, en liðin mætast á ný á sama stað á laugardag.
Síðustu ár hafa verið nokkuð þung fyrir íslenska liðið og lék það síðast á stórmóti árið 2012. Þórey vill sjá Ísland vinna fleiri leiki.
„Við verðum að setja þær kröfur á okkur að fara í leiki til að vinna þá þegar við spilum landsleiki. Við viljum venja okkur á að vinna.
Mér líst vel á liðið. Við erum flottar og margar í hörkuformi. Við erum nokkuð vel slípaðar saman og ég lít björtum augum á næstu leiki,“ sagði hún.
Andrea Jacobsen lét meira að sér kveða í sóknarleik íslenska liðsins en oft áður, lék virkilega vel og skoraði sex mörk, mörg þeirra með glæsilegum skotum fyrir utan.
„Andrea er að spila í Danmörku, er í tuddaformi og ógeðslega flott. Hún er komin með sjálfstraustið og áræðnina sem maður hefur aðeins beðið eftir hjá henni. Það er rosalega gaman að sjá hana blómstra.“