Íslenska kvennalandsliðið í handbolta hafði betur gegn norska B-liðinu, 31:26, í vináttuleik á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.
Íslenska liðið var skrefinu á undan nær allan fyrri hálfleik og varð munurinn mestur þrjú mörk. Norska liðið svaraði hins vegar öllum áhlaupum Íslands og var því aldrei langt undan. Þegar uppi var staðið munaði aðeins einu marki á liðunum í hálfleik, 15:14.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor í fyrri hálfleiknum og þær Sandra Erlingsdóttir og Andrea Jacobsen áttu einnig flotta spretti og voru ógnandi.
Vörnin og Elín Jóna Þorsteinsdóttir í markinu byrjuðu vel, en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn átti norska liðið auðveldara með að opna það íslenska. Hinum megin gekk sóknarleikur Íslands vel og var leikurinn því skemmtilegur á að horfa, þar sem sóknarleikur var í aðalhlutverki.
Ísland byrjaði seinni hálfleikinn á að komast fjórum mörkum yfir í fyrsta sinn, 19:15. Sá var einmitt munurinn þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 22:18. Þegar skammt var eftir var munurinn fimm mörk, 28:23 og ljóst hvort liðið færi með sigur af hólmi.
Andrea Jacobsen var markahæst í íslenska liðinu með sex mörk og þær Sandra Erlingsdóttir og Thea Imani Sturludóttir gerðu fimm mörk hvor.
Liðin mætast öðru sinni á sama stað á laugardag.