Stjarnan upp í þriðja sætið

Stjörnumaðurinn Gunnar Steinn Jónsson reynir að stöðva KA-manninn Einar Rafn …
Stjörnumaðurinn Gunnar Steinn Jónsson reynir að stöðva KA-manninn Einar Rafn Eiðsson. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Stjörnumenn skutust upp í þriðja sæti úrvalsdeildar karla í handknattleik, alla vega um stundarsakir, með því að sigra KA í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld, 30:26.

Stjarnan er komin með 21 stig og fór uppfyrir ÍBV og Fram í þriðja sætið.

KA er áfram með 11 stig og á nú nánast enga möguleika á að komast í úrslitakeppnina, auk þess sem fallhættan jókst með þessum ósigri. ÍR er með 8 stig í næstneðsta sætinu en á nú tvo leiki til góða á Akureyrarliðið.

Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn og jafnt á nær öllum tölum þar sem liðin skiptust á um forystuna. Þegar flautað var til leikhlés var Stjarnan marki yfir, 13:12, og Starri Friðriksson hafði þá skorað sex af mörkum Garðabæjarliðsins og Ólafur Gústafsson fimm fyrir KA.

Í seinni hálfleik var áfram jafnt upp að 16:16 en þá skoraði Stjarnan fjögur mörk í röð og komst í 20:16. KA svaraði með þremur mörkum, 20:19, en Garðbæingar gáfu í á ný og komust í 25:21 og síðan í 26:22 þegar sjö mínútur voru til leiksloka. 

Akureyringar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn aftur í eitt mark, 26:25. Brynjar Hólm Grétarsson skoraði 27. mark Stjörnunnar og Sigurður Dan Óskarsson í marki Garðbæinga varði frá KA-mönnum í tveimur sóknum þeirra í röð. Þegar Stjarnan komst í 28:25 voru úrslitin ráðin.

Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 10, Hergeir Grímsson 5, Hjálmtýr Alfreðsson 4, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Tandri Már Konráðsson 2, Sigurður Dan Óskarsson 1, Jóhann Karl Reynisson 1, Björgvin Hólmgeirsson 1, Gunnar Steinn Jónsson 1.
Sigurður Dan Óskarsson varði 16/1  skot.

Mörk KA: Ólafur Gústafsson 9, Dagur Gautason 4, Jens Bragi Bergþórsson 4, Einar Rafn Eiðsson 4, Allan Norðberg 3, Gauti Gunnarsson 2.
Nicholas Satchwell varði 14 skot og Bruno Bernat 8.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert