„Ætli ég sé ekki bara búinn að setja aðeins meira púður í handboltann en áður. Ég hef alltaf æft vel en aldrei eins og síðustu mánuði. Ég byrjaði á að styrkja mig mikið fyrir tímabilið, í crossfit og öðru, og svo snýst þetta bara um að taka aðeins fleiri skot á æfingum og þora að taka skotin og hlaupa fram í leikjunum.“
Þetta segir Stiven Tobar Valencia, handboltamaður í Val og nýjasti landsliðsmaður Íslands, en hann hefur leikið afar vel með Íslandsmeisturunum á yfirstandandi leiktíð.
„Ég hef líka passað sérstaklega vel upp á mataræðið. Þetta skilar sér allt. Það er mikill metnaður í Valsliðinu sem smitar út frá sér. Það er gaman þegar vel gengur en líka hörkuvinna á bak við árangur eins og þann sem við höfum verið að ná,“ segir Stiven en Valur er bæði ríkjandi Íslands- og bikarmeistari.
Útséð er með að Valur verji bikarinn eftir tap gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum um daginn en Stiven segir stefnuna setta á að vinna þriðja Íslandsmeistaratitilinn í röð í vor. „Það er aðaltitillinn sem stefnt er að. Við viljum vera besta lið landsins, auk þess sem Íslandsmeistaratitillinn skilar okkur í Evrópukeppni. Við erum mjög samheldinn hópur, allir að róa í sömu átt, og það hefur myndast mjög góður mórall. Það skiptir mjög miklu máli í íþróttum, ekki síst þegar maður er meira með strákunum í liðinu en kærustunni sinni,“ segir hann hlæjandi en mikið álag hefur verið á Valsliðinu í vetur vegna velgengninnar í Evrópudeildinni. Leikið að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku.
Þegar Stiven fæddist blasti alls ekki við að hann ætti eftir að verða Valsari og landsliðsmaður Íslands í handbolta enda sá hann fyrst dagsins ljós í Kólumbíu. Fjölskylda hans þráði hins vegar betra líf og eftir að hafa búið til skamms tíma í Ekvador lá leiðin til Íslands en hingað kom Stiven fimm ára gamall ásamt móður sinni og þremur systkinum, tveimur eldri og einu yngra. „Ég veit ekki hvernig það kom til en tækifærið gafst og mamma ákvað að slá til enda vissi hún að aðstæður væru góðar á Íslandi og lífsgæði mikil. Mér skilst að valið hafi staðið milli Íslands og Kanada. Ég byrjaði á leikskóla í Hlíðunum og þaðan lá leiðin í Hlíðaskóla og Val, þar sem ég byrjaði að æfa fótbolta.“
– Gekk þér og ykkur vel að aðlagast?
„Já, mjög vel. Ég féll strax inn í hópinn og man ekki eftir mér annars staðar en á Íslandi. Fimm ára börn læra yfirleitt nýtt tungumál á núll einni. Systir mín, sem er elst, var orðin þrettán ára og átti ekki alveg eins auðvelt með að læra íslenskuna en þær mamma tala hana ljómandi vel í dag. Okkur hefur liðið mjög vel á Íslandi.“
Stiven var ekki búinn að spyrna lengi á Hlíðarenda þegar Óskar Bjarni Óskarsson, holdgervingur handboltans hjá Val, plataði hann yfir í handbolta. „Hann fær alla krakka til að prófa handbolta,“ segir Stiven hlæjandi. „Mér fannst gaman í hvoru tveggja en færðist yfir í handboltann með tímanum enda vonlaust að stunda báðar greinar samhliða þegar maður nálgast meistaraflokk. Ætli ég hafi ekki verið 16 eða 17 ára þegar ég hætti í fótboltanum. Ég valdi aldrei formlega á milli, þannig lagað séð, en þegar ég var kominn í meistaraflokk í handboltanum þá varð ekki aftur snúið.“
Eins og við þekkjum er Stiven öskufljótur og fyrir vikið kemur ekki á óvart að hann hafi verið framherji í fótbolta, fyrst á kantinum og síðan senter. „Það var mjög gaman í fótboltanum en ég hugsa ekki um það í dag. Litli bróðir minn sér núna um það fyrir hönd fjölskyldunnar.“
Hann segir téðan Óskar Bjarna eiga stóran þátt í að móta sig sem leikmann. „Óskar er ótrúlegur maður. Hann þjálfar alla flokka, mætir á alla leiki og hefur samt tíma fyrir alla. Svo höfum við Arnór sonur hans gengið gegnum allt saman, bæði í handbolta og fótbolta. Ég á þessari fjölskyldu margt að þakka.“
Hann ber ekki síður lof á Snorra Stein Guðjónsson, þjálfara meistaraflokks Vals. „Hann er bara í einu orði sagt geggjaður. Við Snorri náum mjög vel saman og hann hefur haft mikla trú á mér. Liðið spilar líka mjög hraðan bolta sem hentar mér vel.“
Nánar er rætt við Stiven í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.