Arnór Snær Óskarsson úr Val hefur verið kallaður inn í A-landslið karla í handknattleik fyrir leikina tvo gegn Tékkum í undankeppni Evrópumótsins sem fara fram á miðvikudag og sunnudag.
Arnór er nýliði í hópnum en hann er 23 ára gamall, örvhent skytta, og á leiki að baki með yngri landsliðum Íslands. Hann er næstmarkahæsti leikmaður Valsmanna í úrvalsdeildinni í vetur með 66 mörk í 18 leikjum og hefur átt frábæra leiki með þeim í Evrópudeildinni.
Íslenska landsliðið fer til Tékklands í dag og leikur liðanna fer fram í Brno á miðvikudagskvöldið klukkan 19.15. Seinni leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni á sunnudaginn klukkan 16.
Ísland og Tékkland eru bæði með fjögur stig eftir tvær fyrstu umferðir undanriðilsins en liðin unnu bæði sigra á Eistlandi og Ísrael í fyrstu tveimur umferðunum í október.