Guðmundur samdi við Hauka

Guðmundur Hólmar Helgason í leik með Selfyssingum.
Guðmundur Hólmar Helgason í leik með Selfyssingum. mbl.is/Óttar Geirsson

Haukar staðfestu í dag að handknattleiksmaðurinn Guðmundur Hólmar Helgason muni ganga til liðs við þá frá Selfossi að þessu keppnistímabili loknu og að hann sé búinn að skrifa undir tveggja ára samning við Hafnarfjarðarfélagið.

Guðmundur er 31 árs gamall og leikur ýmist sem skytta vinstra megin eða leikstjórnandi. Hann ólst upp á Akureyri og spilaði með liði Akureyrar til ársins 2013, með Val á árunum 2013-2016 og var síðan atvinnumaður í fjögur ár með Cesson Rennes í Frakklandi og West Wien í Austurríki.

Guðmundur hefur leikið 25 A-landsleiki og á eitt stórmót að baki með íslenska landsliðinu en hann lék með því á EM árið 2016.

Í vetur hefur Guðmundur skorað 72 mörk í 17 leikjum fyrir Selfyssinga í úrvalsdeildinni, er þriðji markahæsti leikmaður liðsins, og hefur átt 39 stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert