Færeyska karlalandsliðið í handknattleik gerði sér lítið fyrir og vann frækinn sigur á Rúmeníu, 28:26, í undankeppni EM 2024 í kvöld.
Færeyingar léku fyrir fullu húsi í Höllinni á Hálsi í Þórshöfn í kvöld og var greinilegt að heimamenn væru klárir í slaginn þar sem liðið lék á als oddi í fyrri hálfleiknum.
Eftir jafnræði til að byrja með sigldu heimamenn nefnilega fram úr og leiddu með sex mörkum, 15:9, í hálfleik.
Færeyjar hófu síðari hálfleikinn á því að komast í sjö marka forystu en ekki leið á löngu þar til Rúmenar hófu að vinna sig af krafti inn í leikinn.
Tókst gestunum enda að jafna metin í 20:20 og því var ljóst að síðari hluti síðari hálfleiks yrði æsispennandi.
Færeyingar náðu aftur vopnum sínum og komust í 23:20 en aldrei gáfust Rúmenar upp og jöfnuðu metin í 25:25.
Nær komst Rúmenía þó ekki þar sem Færeyjar reyndist sterkara liðið í blálokin og sigldi að lokum frábærum tveggja marka sigri í höfn.
Hákun West av Teigum fór á kostum og skoraði 11 mörk í 12 skotum fyrir Færeyjar.
Elías Ellefsen á Skipagötu bætti við fimm mörkum og Óli Mittún fjórum.
Nicholas Satchwell, markvörður KA, lék vel í marki Færeyinga og varði átta af þeim 22 skotum sem hann fékk á sig, sem er rétt rúmlega 36 prósenta markvarsla.
Markahæstur í liði Rúmeníu var Alexandru Tarita með sex mörk. Ante Kuduz bætti við fimm mörkum.
Með sigrinum komu Færeyjar sér á blað þar sem liðið er með tvö stig eftir þrjá leiki líkt og Rúmenía í riðli 4.
Austurríki er á toppnum með fjögur stig, Færeyjar í öðru, Rúmenía í þriðja og Úkraína rekur lestina, einnig með tvö stig en á eftir leik gegn Austurríki.
Færeyjar eygja því von um að tryggja sér sæti á Evrópumóti í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar.