Ólafur snýr aftur til Svíþjóðar

Ólafur Guðmundsson snýr aftur til Svíþjóðar.
Ólafur Guðmundsson snýr aftur til Svíþjóðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Andrés Guðmundsson landsliðsmaður í handknattleik er á leið til Svíþjóðar á ný eftir þetta tímabil.

Þetta kemur fram í Aftonbladet í dag og þar er sagt að nú fari hann ekki til Kristianstad þar sem hann lék um árabil við góðan orðstír, heldur sé hann samkvæmt heimildum blaðsins langt kominn með að semja við Karlskrona.

Ólafur kom til Amicitia Zürich í Sviss síðasta sumar frá Montpellier í Frakklandi og á tvö ár eftir af samningi sínum þar en Aftonbladet segir að samkvæmt sínum heimildum vilji fjölskyldan flytja aftur til Kristianstad strax eftir þetta tímabil og Karlskrona er í um 100 km fjarlægð þaðan.

Karlskrona er sem stendur í öðru sæti sænsku B-deildarinnar og stefnir á að leika í úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Aftonbladet segir að þrátt fyrir að óvíst sé hvort félagið verði í efstu deild þá skipti það engu máli. Ólafur muni koma til félagsins í hvorri deildinni sem það verður og hitti þar á ný fyrrverandi þjálfara sinn hjá Kristianstad, Ola Lindgren, sem sé yfirþjálfari Karlskrona.

Ólafur varð fyrir meiðslum á heimsmeistaramótinu í janúarmánuði og er ekki með íslenska liðinu í leikjunum við Tékka. Hann lék í átta ár með Kristianstad á sínum tíma og var afar sigursæll með liðinu en hann var þar fyrirliði um skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert