Sigurður Valur Sveinsson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í handknattleik, gerir þær kröfur að íslenska karlalandsliðið vinni sannfærandi sigur gegn Tékklandi í 3. riðli undankeppni EM 2024 á sunnudaginn.
Liðin mætast í Laugardalshöll á sunnudaginn kemur en leik liðanna í Brno í Tékklandi í gær lauk með fimm marka sigri Tékka, 22:17.
Sigurður var ósáttur með frammistöðu íslenska liðsins í Brno og vill sá alvöru framfarir í seinni leiknum á sunnudaginn.
„Ég átti ekki til orð yfir frammistöðunni satt best að segja,“ sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið.
„Ég átti von á því að drengirnir hefðu borðað hafragrautinn sinn og hefðu metnað og vilja til þess að koma almennilega stemmdir í leikinn en það varð ekki raunin.
Ef þeir vinna ekki leikinn á sunnudaginn með sjö, átta níu eða tíu marka mun fyrir framan fulla Laugardalshöll þá sendi ég þá alla á togara á loðnuveiðar,“ bætti Sigurður við.
Nánar er rætt við Sigurð á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun þar sem fjórir sérfræðingar fara yfir frammistöðu Íslands gegn Tékklandi og þjálfaramál liðsins.