Handknattleiksmaðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson mun ganga til liðs við þýska félagið Minden að loknu yfirstandandi keppnistímabili.
Þetta tilkynnti þýska félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Bjarni Ófeigur, sem er 24 ára gamall, kemur til félagsins frá Skövde í Svíþjóð þar sem hann hefur leikið frá árinu 2020.
Hjá Minden hittir Bjarni fyrir varnar- og línumanninn Svein Jóhannsson og þá mun Aðalsteinn Eyjólfsson taka við þjálfun liðsins í sumar en hann stýrir í dag Kadetten í Sviss.
Bjarni Ófeigur skrifaði undir tveggja ára samning í Þýskalandi en Minden er aðeins með 6 stig í sautjánda og næstneðsta sæti 1. deildarinnar eftir 20 leiki, þremur stigum frá öruggu sæti. Það liggur því ekki fyrir hvort þeir Bjarni, Sveinn og Aðalsteinn verði með liðinu í efstu deild eða í B-deildinni á næsta tímabili.