Kristján Andrésson kveðst hafa áhuga á því að taka við íslenska karlalandsliðinu í handknattleik. Hann er íþróttastjóri sænska úrvalsdeildarfélagsins Guif sem stendur.
„Já, ég held að ég deili því nú með mörgum þjálfurum og mörgum sérfræðingum heima á Íslandi. Er það ekki?“ sagði Kristján í hlaðvarpsþættinum Handkastið, spurður hvort hann hefði áhuga á að taka við stjórnartaumunum hjá landsliðinu.
Guðmundur Þ. Guðmundsson hætti sem landsliðsþjálfari undir lok síðasta mánaðar og stýra Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson liðinu til bráðabirgða á meðan leitað er að nýjum þjálfara.
Þrátt fyrir að vera áhugasamur um starfið sagði Kristján að stæði honum það til boða þyrfti margt að smella saman hjá honum.
Það væri ekki síst þar sem hann væri búsettur í Svíþjóð þar sem hann á sænska eiginkonu og tvo syni, tólf og sjö ára. Auk þess myndi Kristján gera kröfu um að um fullt starf yrði að ræða hefði HSÍ metnað fyrir því að landsliðið yrði í fremstu röð.
Kristján stýrði sænska karlalandsliðinu um nokkurra ára skeið og vann til að mynda til silfurverðlauna með því á EM 2018.