Þorsteinn Gauti lék í fræknum sigri Finna

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson í leik með Fram gegn Val fyrr …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson í leik með Fram gegn Val fyrr á tímabilinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og liðsfélagar hans í finnska landsliðinu í handknattleik héldu von sinni um að komast á Evrópumót í fyrsta sinn í sögunni á lífi með því að leggja Slóvakíu að velli, 30:27, í undankeppni EM 2024 í kvöld.

Þorsteinn Gauti, sem leikur með Fram hér á landi, hóf að leika með finnska landsliðinu í upphafi þessa árs.

Hann er gjaldgengur í landsliðið þar sem amma hans í föðurætt er frá Finnlandi.

Í kvöld skoraði Þorsteinn Gauti tvö mörk úr fjórum skotum.

Bræðurnir Max og Robin Granlund voru markahæstir í liði Finnlands í leiknum. Max skoraði átta mörk og Robin sex.

Mikael Mäkelä fór á kostum í markinu og varði 19 skot. Var hann með rúmlega 43 prósenta markvörslu.

Með sigrinum vann Finnland sér inn sín fyrstu stig í riðli 2 í undankeppninni og er nú í þriðja sæti, en Serbía er á toppnum með sex stig og Noregur í öðru sæti með fjögur stig.

Slóvakía rekur lestina án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert