„Við eigum marga færa þjálfara eins og til dæmis Dag Sigurðsson og Snorra Stein Guðjónsson,“ segir Díana Guðjónsdóttir þjálfari kvennaliðs Hauka í handknattleik um þjálfaramál karlalandsliðsins.
„Það getur líka verið að það yrði gott að fá algjörlega ferskt blóð inn, til dæmis erlendan þjálfara.
Það er mjög mikilvægt að mínu mati að sá sem tekur við þessu komi inn í fullt starf. Ég veit ekki hvort það er gerlegt fyrir HSÍ en starfshlutfallið verður að vera meira en það hefur verið. Við höfum setið eftir, samanborið við aðrar þjóðir, þegar kemur að þessum hlutum,“ segir Díana.
Rætt er við Díönu, Atla Hilmarsson, Sigurð Sveinsson og Hörpu Melsteð um þjálfaramál landsliðsins og frammistöðuna gegn Tékkum í Morgunblaðinu í dag.