HK vann sinn annan leik

HK-ingar unnu sinn annan sigur á tímabilinu.
HK-ingar unnu sinn annan sigur á tímabilinu. mbl.is/Arnþór

HK vann sinn annan leik í Olís-deild kvenna í handknattleik á tímabilinu með eins marks sigri, 25:24, á KA/Þór í Kórnum í dag. 

Akureyringar byrjuðu leikinn mun betur og eftir korter leiddi KA/Þór með fimm mörkum, 9:5. HK vann sig síðan hægt og rólega aftur inn í leikinn og minnkaði muninn í þrjú mörk fyrir hálfleik, 14:11. 

HK var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og á 43. mínútu var Kópavogsliðið búið að jafna metin, 16:16. Æsispennandi lokamínútur biðu þar sem HK hafði betur og vann að lokum eins marks sigur, 25:24, og út braust mikill fögnuður. 

Embla Steindórsdóttir, leikmaður HK, var markahæst í leiknum með átta mörk. Ida Margrethe Hoberg var markahæst í liði KA/Þórs með sjö. 

HK er enn neðst en nú með fjögur stig. KA/Þór er í sjötta sæti með 12 stig, fjórum meira en Selfoss í næstneðsta sæti. 

Mörk HK: Embla Steindórsdóttir 8, Inga Dís Jóhannsdóttir 5, Alfa Brá Hagalín 4, Aníta Eik Jónsdóttir 3, Sóley Ívarsdóttir 3, Jóhanna Lind Jónasdóttir 1, Leandra Náttsól Salvamoser 1.

Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 8.

Mörk KA/Þórs: Ida Margrethe Hoberg 7, Hildur Lilja Jónsdóttir 4, Kristín A. Jóhannsdóttir 4, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Nathalia Soares Baliana 3, Anna Mary Jónsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 11.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert