Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkmvörður í handknattleik, setti inn harðorða færslu á Facebook í dag þar sem hann gagnrýndi íslenska fjölmiðla.
Íslenska karlalandsliðið mætir Tékklandi í Laugardalshöll í undankeppni EM 2024 klukkan 16 en liðin mættust einnig í Brno í Tékklandi á fimmtudaginn þar sem Tékkar höfðu betur, 22:17.
Íslenska liðið var harðlega gagnrýnt eftir frammistöðuna í þeim leik en mikið hefur gustað um karlalandsliðið að undanförnu.
Guðmundur Þórður Guðmundsson lét mjög óvænt af störfum sem þjálfari liðsins í lok febrúar og þá náði liðið ekki settum markmiðum á HM í Svíþjóð og Póllandi þar sem Ísland hafnaði í 12. sæti.
„Ef að standardinn okkar í fyrri leiknum gegn Tékklandi var lítill þá veit ég ekki hvaða orð er hægt að nota um standardinn sem kominn er á okkar fjölmiðla þegar kemur að umfjöllun,“ skrifaði Björgvin á Facebook.
„Stærstu og virtustu miðlarnir okkar eru farnir að éta upp allskonar drasl frá fjölskyldumeðlimum leikmanna, mönnum sem hafa varla spilað leikinn eða einstaklingum sem hafa hreinlega ekki nægilega þekkingu á íþróttinni til þess að geta tjáð sig um það sem fram fer,“ sagði Björgvin Páll meðal annars en færslu hans má sjá hér fyrir neðan.