Fleiri lögðu í púkkið og margir spiluðu vel

Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson stýra íslenska landsliðinu um þessar …
Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson stýra íslenska landsliðinu um þessar mundir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við eigum tvo leiki eftir og verðum bara að halda haus, það er alveg klárt en við erum komnir í bílstjórasætið eins og við ætluðum okkur. Nú er verkefni eftir einhverjar nokkrar vikur og við þurfum að vera tilbúnir þar.“

Viktor kom inn og var frábær

Þetta segir Ágúst Jóhannsson, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, en liðið vann góðan sigur á Tékklandi og endurheimti þar með efsta sæti riðilsins í undankeppni EM, en hvernig horfði leikurinn við Ágústi í dag?

„Mér fannst varnarleikurinn frábær allan leikinn og markvarslan sömuleiðis. Bjöggi náði sér ekki alveg á strik og Viktor kom inn og var auðvitað frábær. Þar af leiðandi náðum við að keyra svolítið meira af hraðaupphlaupum heldur en við náðum að gera úti.“

Uppstilltur sóknarleikur betri

Ágúst segir Tékkana reyna að drepa leikinn og tempóið svakalega niður en þeir hafi ekki náð því í dag.

„Uppstilltur sóknarleikur var mun betri en síðast. Það voru fleiri að leggja í púkkið og margir að spila virkilega vel í dag,“ segir Ágúst.

Hann kallaði eftir fleiri mörkum úr hraðaupphlaupum fyrir leikinn í dag en íslenska liðið nýtti hraðaupphlaupin illa ytra á miðvikudag. Það gekk mun betur í dag.

„Við vorum að fá meðal annars fleiri hraðaupphlaup á fyrstu bylgju og svo fengum við líka aðra og þriðju bylgju,“ segir hann og bætir við.

Drengirnir hafa sýnt mikla fagmennsku

„Að spila í höllinni þegar stemningin er svona er auðvitað bara stórkostlegt. Strákarnir stóðu sig frábærlega. Þetta hafa verið erfiðir dagar frá síðasta leik en menn hafa haldið haus og unnið vel í sínum málum. Drengirnir hafa sýnt mikla fagmennsku og við höfum verið mjög ánægðir með þá.“

Eitthvað aðeins extra þegar við mætum í höllina

Er mikill munur að spila í Laugardalshöllinni samanborið við Ásvelli?

„Það er frábært að spila á Ásvöllum en það er eitthvað aðeins extra sem kemur þegar við mætum hérna í höllina. Áhorfendur eru nálægt vellinum og stemningin var bara frábær og fólki líður vel í höllinni.

Höllin er glæsileg eins og hún er svona en það eina er að við hefðum getað selt örugglega fimm- eða sexþúsund miða í viðbót því það er svo mikill áhugi á liðinu. Það er eitthvað sem kemur en það var frábært að spila hér í gömlu góðu stemningunni,“ segir kampakátur Ágúst Jóhannsson í samtali við mbl.is.

Það var góð stemning í Laugardalshöll að venju.
Það var góð stemning í Laugardalshöll að venju. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert