„Þetta var geggjað“

Viktor Gísli Hallgrímsson kom inn á um miðbik fyrri hálfleiks …
Viktor Gísli Hallgrímsson kom inn á um miðbik fyrri hálfleiks og skellti íslenska markinu í lás fyrstu mínúturnar. mbl.is/Óttar

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, segir það hafa verið sturlaða upplifun að standa á milli stanganna í Laugardalshöll í dag.

Íslenska liðið end­ur­heimti topp­sæti 3. riðils und­an­keppni EM 2024 með stór­sigri gegn Tékklandi í Laug­ar­dals­höll í dag. Leikn­um lauk með níu marka sigri Íslands, 28:19, en Viktor Gísli kom inn á um miðbik fyrri hálfleiks, varði 13 skot í markinu og var með yfir 50% markvörslu.

Það var gaman að standa sig vel

„Þetta var geggjað. Ég hef ekki fengið að spila oft í höllinni. Ég held að þetta hafi verið í þriðja skiptið. Það var gaman að standa sig svona vel.“

Viktor Gísli segist hafa náð sér góðum af þrálátum meiðslum í olnboga sem hann hefur glímt við undanfarið.

„Olnboginn er fínn. Ég er enn þá með hlífina og passa upp á þetta enn þá en þetta er ekkert að trufla mig lengur.“

Svipaðir leikir að mörgu leyti

Viktor segir að leikurinn í dag og leikurinn í Tékklandi á miðvikudag hafi að mörgu leyti verið svipaðir.

„Við spiluðum frábæra vörn í báðum leikjum en sóknin komst betur í gang í dag. Við fengum tvær æfingar til að spila okkur betur saman.

Viggó og Gísli og, þú skilur, byrjunarliðið hefur ekki spilað mikið saman síðustu ár. Þeir fengu aðeins að spila sig saman og þetta gekk bara frábærlega,“ segir kampakátur Viktor Gísli Hallgrímsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert