„Við vorum agaðir og skynsamir“

Gísli Þorgeir Kristjánsson brýst í gegnum tékknesku vörnina í dag.
Gísli Þorgeir Kristjánsson brýst í gegnum tékknesku vörnina í dag. mbl.is/Óttar

Gísli Þorgeir Kristjánsson var öflugur í liði Íslands í frábærum sigri á Tékklandi í Laugardalshöll í dag. Íslenska karla­landsliðið í hand­knatt­leik end­ur­heimti topp­sæti 3. riðils undan­keppni EM 2024 með stór­sigri gegn Tékklandi í Laug­ar­dals­höll í dag.

Leikn­um lauk með níu marka sigri Íslands, 28:19, en Gísli Þor­geir og Viggó Kristjáns­son voru marka­hæst­ir í ís­lenska liðinu með sex mörk hvor.

Hafnfirðingurinn var glaðbeittur í leikslok.

„Mér líður vel. Við nýttum hvert einasta færi til að stinga þá aðeins í bakið sem við gerðum ekki úti. Mér fannst við bara svara gagnrýnendum gríðarlega vel,“ segir Gísli.

„Við þurftum að vera þolinmóðir“

Íslenska liðið var langt frá sínu besta í fyrri leiknum í Tékklandi á miðvikudag og tapaði nokkuð sannfærandi með fimm marka mun en það var allt annað að sjá til liðsins í dag.

„Við vorum agaðir og skynsamir. Við vissum að þetta væri 60 mínútna verkefni og að við værum ekki að fara að ná þessu fimm marka forskoti á fyrstu tíu mínútunum.

Við þurftum að vera ótrúlega þolinmóðir. Það er meira en að segja það því þeir spila gríðarlega langar sóknir. Ég hugsa að þeir hafi ekki spilað eina sókn sem var undir mínútu í raun.

Við náðum upp heimsklassa vörn og svo var allt annað að sjá okkur í slúttunum. Það var engin hræðsla eða neitt, sama þó við klikkuðum á nokkrum færum þá var bara haldið áfram. Bara vera alltaf stór.“

Landsliðið á heima í Laugardalnum

Gísli segir Laugardalshöll gefa liðinu gríðarlega mikið.

„Við náðum nokkrum mómentum þar sem við náðum höllinni upp og það hjálpaði okkur auðvitað gríðarlega mikið og lætur þá vera aðeins minni.“

Hann segir allt annað að spila á Laugardalshöll en til dæmis á Ásvöllum þar sem íslenska liðið hefur leikið sína heimaleiki undanfarið.

„Hérna á landsliðið heima, í Laugardalnum. Sem FH-ingur vill maður ekkert spila landsleikina allt of mikið á Völlunum, frekar myndi ég vilja vera í Krikanum, ef eitthvað er en það er önnur ella.“

Sköpuðum mikið af góðum færum

Gísli var ánægður með eigin frammistöðu.

„Mér fannst flæðið vera gott á boltanum og mér fannst við skapa okkur mikið af góðum færum. Þeir spila ótrúlega langar sóknir sem gerir það að verkum að við fáum enn færri uppstilltar sóknir og verðum því að vera ótrúlega skynsamir og fara vel með okkar sóknir og mér fannst við gera það,“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert