„Við löguðum ákveðin atriði sóknarlega til að byrja með og reyndum að fá höllina með okkur,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við mbl.is eftir öruggan 28:19-sigur Íslands á Tékklandi í undankeppni EM 2024 í handknattleik í gær.
„Mér fannst vörnin jafn góð og í síðasta leik, hún var frábær úti. Varnarleikurinn var það eina góða sem við tókum út úr þeim leik.
Hann var áfram góður í dag og svo löguðum við sóknarleikinn. Við gerðum betur og getum auðvitað gert enn betur en við erum drullusáttir við að hafa klárað þetta,“ hélt hann áfram.
Ísland tapaði illa, 17:22, í fyrri leik liðanna í riðli 3 í Brno á miðvikudag. Bjarki Már kvaðst ekki vilja skrifa það tap á karaktersleysi.
„Þetta var ekkert karaktersleysi, stundum eigum við bara lélegan leik. Þó við séum komnir með gott lið þá erum við ekkert orðnir Danir eða Frakkar. Við þurfum að hafa fyrir hlutunum og vorum einhvern veginn slegnir niður í jörðina í leiknum úti.
Það kemur fyrir, liðið er ekki búið þó það eigi einn lélegan leik. Við mætum í næsta leik og klárum verkefnið með sæmd, þetta var vel gert hjá okkur í dag,“ sagði hann.
Með sigrinum endurheimti Ísland toppsæti riðils 3. Hvað þýðir sigurinn fyrir liðið í framhaldinu?
„Ég veit það svo sem ekki alveg en við viljum búa til sigurhugarfar í liðinu og viljum vinna þessa umferð. Ég held að við séum komnir langt með það núna.
Við sjáum hvað setur, það er væntanlega eitthvað styrkleikaraðað, sem ég þekki ekki alveg, en við viljum náttúrlega vinna alla riðla sem við tökum þátt í,“ sagði Bjarki Már.
Sjálfur skoraði hann fjögur mörk í leiknum í gær og var þannig á meðal markahæstu manna. Bjarki Már kvaðst nokkuð sáttur við eigin frammistöðu í gær.
„Já, já. Ég var náttúrlega hræðilegur úti og var staðráðinn í að byrja vel í dag og koma af krafti inn í þetta. Mér fannst það bara takast nokkuð vel til þannig að ég er bara sáttur.“