Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, sagðist eiga erfitt með að útskýra 14 marka sveifluna á milli fimm marka tapleiks gegn Tékklandi á miðvikudag og svo níu marka sigurs gegn sama liði í undankeppni EM 2024 í gær.
Honum kom þó ein ástæða til hugar.
„Ef það er ein augljós ástæða þá er það fólkið auðvitað. Okkur líður rosalega vel hérna, sérstaklega í höllinni þar sem við erum að spila loksins aftur eftir 3-4 ár.
Þetta er einstakur heimavöllur sem við höfum. En það er reyndar alveg rétt að það á ekki að vera svona mikill munur á okkur, handboltanum sem við spilum í dag. Við erum vanir því að spila á erfiðum útivöllum á móti þessum bestu liðum.“
„Við verðum auðvitað að læra af þessu en þetta eru samt búnir að vera nokkrir útileikir síðustu 3-4 ár þar sem við höfum farið og gert eitthvað sem við vildum ekki gera. Við þurfum því að fara að kanna aðeins hvað við getum gert betur þar,“ sagði Aron í samtali við mbl.is eftir leik.
„Þetta var flott, gott, jákvætt. Við spiluðum vel í dag og gerðum það sem þurfti. Við ætluðum okkur alltaf að vinna riðilinn þegar hann varð ljós þannig að við erum þar sem við viljum vera,“ hélt hann áfram.
Spurður út í eigin frammistöðu sagði Aron að lokum:
„Skotin voru eitthvað aðeins að klikka hjá mér en annars er ég bara sáttur við að höfum unnið með níu mörkum. Þá gæti mér ekki verið meira sama.“