U21-árs landslið karla í handknattleik lék um helgina tvo vináttuleiki gegn því franska í Abbeville í Frakklandi. Fyrri leikinn vann Ísland með níu mörkum og sá síðari tapaðist með einu marki.
Í fyrri leiknum leiddi íslenska liðið með fjórum mörkum, 16:12, í hálfleik og keyrði svo yfir það franska í síðari hálfleiknum. Lokatölur urðu 33:24.
Adam Thorstensen, markvörður Stjörnunnar, átti stórleik og varði 16 skot í marki Íslands. Var hann fyrir vikið valinn maður leiksins.
Benedikt Gunnar Óskarsson hjá Val skoraði átta mörk og Einar Bragi Aðalsteinsson hjá FH bætti við fimm.
Mörk Íslands: Benedikt Gunnar Óskarsson 8, Einar Bragi Aðalsteinsson 5, Símon Michael Guðjónsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Arnór Viðarsson 2, Reynir Þór Stefánsson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Tryggvi Þórisson 1, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Stefán Orri Arnalds 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 16, Bruno Bernat 2.
Í síðari leiknum var Ísland einnig sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 18:15.
Í síðari hálfleik var allt í járnum áður en Frakkland sigldi naumlega fram úr undir blálokin og tryggði sér sigur með minnsta mun, 33:32.
Símon Michael Guðjónsson var markahæstur Íslendinga í síðari leiknum með sex mörkum. Skammt undan var Benedikt Gunnar með fimm og Andri Már Rúnarsson og Einar Bragi bættu við fjórum mörkum hvor.
Mörk Íslands: Símon Michael Guðjónsson 6, Benedikt Gunnar Óskarsson 5, Andri Már Rúnarsson 4, Einar Bragi Aðalsteinsson 4, Arnór Viðarsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 2, Tryggvi Þórisson 2, Róbert Snær Örvarsson 2, Kristófer Máni Jónsson 2, Reynir Þór Stefánsson 1 og Stefán Orri Arnalds 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 6, Bruno Bernat 5.