Endurhæfingin hefur gengið mjög vel

Haukur Þrastarson í leik með íslenska landsliðinu.
Haukur Þrastarson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Ég er ekki byrjaður að æfa með liðinu en er að æfa sjálfur, ég er bara í endurhæfingu ennþá. Ég er búinn að vera heima í endurhæfingu síðan ég fór í aðgerð og var að koma út til Póllands aftur. Ég tek seinni hluta endurhæfingarinnar þar.“

Þetta sagði handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson, leikmaður pólska stórliðsins Kielce, í samtali við mbl.is.

Haukur varð fyrir því mikla óláni að slíta krossband í hné í leik með Kielce gegn Pick Szeged í Meistaradeild Evrópu þann 7. desember síðastliðinn. Var það í annað sinn á rétt rúmum tveimur árum sem hann slítur krossband í hné.

Erfitt að segja hvort þessi meiðsli séu betri

Kielce birti í dag myndskeið af Hauki á Twitteraðgangi sínum þar sem hann heilsar upp á liðsfélaga sína eftir að hafa sinnt fyrri hluta endurhæfingar sinnar hér á landi. Þar er haft eftir Hauki:

„Ég sný ekki aftur fyrr en á næsta tímabili en þetta er töluvert betra að þessu sinni samanborið við fyrri meiðslin.“

Spurður út í þessi ummæli vildi Haukur ekki kveða jafn fast að orði en sagði þó:

„Í rauninni gengur endurhæfingin betur, þetta gengur mjög vel. Það er reyndar erfitt að segja núna hvort þetta sé betra heldur en síðast eða ekki en það hefur gengið mjög vel hingað til.“

Stutt liðið frá meiðslunum og ferlið langt

Hann sagði Kielce hafa reynst sér afar vel í meiðslunum.

„Já, klárlega. Ég fór eiginlega í aðgerð um leið og þetta gerðist, eða rétt fyrir jól. Svo fór ég heim í endurhæfingu og fékk að vera þar í góðan tíma. Félagið hefur stutt vel við bakið á mér í þessu.“

Síðast þegar Haukur sleit krossband var hann frá keppni í rúmt ár og væntir þess að geta í allra besta falli snúið aftur snemma á næsta tímabili.

„Það er erfitt að segja til um það núna, það er eiginlega ómögulegt, en vonandi, ef allt gengur vel, þá gæti það alveg gerst. En það er eiginlega ómögulegt að segja eitthvað til um það núna, það er svo stutt liðið og þetta er svo langt ferli,“ sagði Haukur.

Geri ráð fyrir að vera áfram

Undir lok síðasta árs var framtíð Kielce stefnt í óvissu þegar einn stærsti styrktaraðili félagsins, drykkjarvöruframleiðandinn, Van Pur, ákvað að falla frá samstarfi. Í lok janúar tilkynnti félagið að starfsemi haldið áfram en frekari tíðinda varðandi framtíð félagsins er að vænta í lok þessa mánaðar.

Aðspurður kvaðst Haukur ekki vita meira um stöðu mála.

„Nei, ekkert annað en það að það verður haldið áfram á sömu braut. Ég er með samning áfram og geri ráð fyrir því að vera áfram. Ég á von á því að allt haldist óbreytt, allavega eins og staðan er núna.“

Samningur Hauks við Kielce rennur út sumarið 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert