Kolstad tryggði sér í kvöld sigur í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik með öruggum útisigri gegn Arendal, 29:23, og hrepptir þar með þann titil í fyrsta skipti í sögunni.
Kolstad hefur verið yfirburðalið í Noregi í vetur eftir að liðið náði sér í fjölda öflugra leikmanna síðasta sumar, og hefur unnið alla 19 leiki sína í deildinni. Liðið er með átta stiga forskot á Elverum þegar þrjár umferðir eru enn eftir en Elverum hefur unnið deildina undanfarin þrjú ár.
Þá er þetta besti árangur sem lið frá Þrændalögum í Noregi hefur náð en lið frá Þrándheimi og nágrenni hafa áður best náð fjórða sæti í deildinni.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Kolstad í dag en Janus Daði Smárason lék ekki með liðinu að þessu sinni. Hafþór Vignisson lék með Arendal en skoraði ekki en lið hans er í sjöunda sæti og á góða möguleika á að komast í átta liða úrslitakeppnina um meistaratitilinn.