Hilmar Ágúst Björnsson leysti Sigurð Bragason af sem aðalþjálfari ÍBV er liðið vann Selfoss, 29:26, í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta í Laugardalshöll í kvöld.
„Við náðum að rúlla hópnum vel og það var mikið gott í þessu. Þetta var aðeins erfitt í restina en við kláruðum þetta af sæmd,“ sagði Hilmar.
ÍBV leiddi með níu mörkum þegar um korter var eftir en þá kom góður kafli Selfyssinga sem minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, en komust þó ekki nær.
„Við náðum að rúlla, það spila allir korter og við klárum þetta með þremur mörkum. Selfoss-liðið er hörkulið, Katla var hrikalega flott og markmaðurinn er mjög flottur. Það var sætt að klára þetta og komast í úrslit,“ sagði Hilmar.
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var á dögunum dæmdur í tveggja leikja bann og var þetta seinni leikur þess leikbanns. ÍBV vann báða leikina sem Sigurður var í leikbanni.
„Það var gott að fá Magga með mér í þetta. Hann er frábær og við erum búnir að þjálfa saman yngri flokka síðustu ár. Það verður gott að fá Sigga inn í þetta, hann kann þetta allt og er hrikalega flottur þjálfari,“ sagði Hilmar enn fremur.
ÍBV fékk eins og vanalega góðan stuðning úr stúkunni, þrátt fyrir að leikurinn væri á miðvikudagskvöldi.
„Þetta var mun betra en ég bjóst við. Það er miðvikudagur og við erum að fara heim með bátnum á miðnætti. Þetta verður hrikalega skemmtilegt á laugardaginn, það er von á mjög mörgum,“ sagði Hilmar að lokum.