Símon Michael Guðjónsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við handknattleiksdeild FH. Gengur hann til liðs við félagið frá HK í sumar.
Símon Michael er tvítugur vinstri hornamaður sem hefur leikið vel fyrir HK í næstefstu deild, Grill 66-deildinni, á tímabilinu, þar sem hann hefur skorað að meðaltali sjö mörk í leik.
Hann er þá fastamaður í U21-árs landsliði Íslands. Bróðir hans, Sigvaldi Björn Guðjónsson, leikur með A-landsliði Íslands og norska toppliðinu Kolstad.
„Símon Michael er virkilega efnilegur leikmaður sem leikur í stöðu vinstri hornamanns. Við hlökkum til að sjá Símon í FH-treyjunni á næstu árum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild FH.