Valur leikur til úrslita í bikarkeppni kvenna í handbolta í ár en liðið vann afar sannfærandi sigur á Haukum, 28:19, í Laugardagshöll í kvöld. Valur mætir annaðhvort ÍBV eða Selfossi í úrslitaleiknum á laugardag en þau lið mætast síðar í kvöld.
Valskonur byrjuðu af krafti og komust í 3:0 en Haukakonur, og þá aðallega Elín Klara Þorkelsdóttir, svöruðu og voru ekki lengi að jafna metin. Liðin skiptust á mörkum þangað til um miðbik hálfleiksins en þá kom góður kafli frá Val sem breytti stöðunni í 13:7. Þá náðu Haukakonur aðeins að stoppa blæðinguna og hélst munurinn í kringum sex mörk það sem eftir var af fyrri hálfleik. Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 16:9, Hlíðarendaliðinu í vil.
Í seinni hálfleik voru Valskonur áfram með yfirhöndina og voru ekki lengi að auka forskotið í tíu mörk. Eftir það var ekki aftur snúið og þrátt fyrir að Haukar hafi reynt ýmislegt til að minnka muninn gekk það lítið sem ekki neitt. Að lokum fór það svo að Valskonur unnu sannfærandi sigur, 28:19.
Thea Imani Sturludóttir var markahæst í liði Vals í leiknum með sjö mörk og Mariam Eradze kom næst með fjögur. Þá varði Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir sjö skot í markinu. Elín Klara Þorkelsdóttir var langbesti leikmaður Hauka í leiknum en hún skoraði níu mörk.